Mottumars 2024

Heilsuráð

REGLULEG HREYFING OG FLEIRI GÓÐAR LÍFSVENJUR MINNKA LÍKUR Á KRABBAMEINUM

Kallaútkall! er yfirskrift Mottumars í ár þar sem lögð er áhersla á forvarnargildi hreyfingar. Regluleg hreyfing dregur úr hættunni á krabbameinum, en allt of margir karlmenn hreyfa sig ekki nóg til að njóta þessara verndandi áhrifa. Öll hreyfing gerir gagn og það er aldrei of seint að byrja.

Fjórðungur fullorðinna karla á Íslandi stundar rösklega hreyfingu í eina klukkustund eða minna á viku. Taktu þátt í að breyta þessu, það er þér í hag!

Ásamt því að hreyfa okkur reglulega getum við dregið úr líkum á krabbameinum með fleiri heilsusamlegum lífsvenjum. Kynntu þér þessar ráðleggingar.

Taktu góðar ákvarðanir fyrir þig og þína!

Við drögum úr líkunum á að fá krabbamein þegar við:

 • Hreyfum okkur daglega og höldum kyrrsetu í lágmarki
 • Reykjum hvorki né neytum tóbaks og forðumst óbeinar reykingar
 • Stefnum að hæfilegri líkamsþyngd
 • Neytum áfengis í hófi eða sleppum því
 • Fylgjum leiðbeiningum um sólarvarnir og notum ekki ljósabekki

 • Erum meðvituð um að fæðuval skiptir máli:
 • Borðum ríflega af grænmeti og ávöxtum, heilkornavörum og baunum
 • Takmörkum neyslu á rauðu kjöti
 • Forðumst unnar kjötvörur
 • Forðumst sykraða drykki

 • Kynntu þér ráðleggingarnar betur:

  Hreyfum okkur daglega og höldum kyrrsetu í lágmarki

  Regluleg hreyfing á hvaða formi sem er hjálpar til við að draga úr líkum á krabbameinum. Þannig minnkar hreyfing líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi, brjóstum,og í legbol. Einnig eru vísbendingar um að regluleg miðlungserfið hreyfing minnki líkur á krabbameini í blöðruhálskirtli.

  Hreyfing hefur jákvæð áhrif á hormónajafnvægi líkamans, minnkar bólgumyndun og hraðar ferð fæðunnar í gegnum meltingarveginn. Þar sem hreyfing er einnig mikilvægur þáttur í þyngdarstjórnun þá getur hreyfing haft verndandi áhrif gegn ýmsum krabbameinum sem tengjast hárri líkamsþyngd.

  Embætti landlæknis ráðleggur að fullorðnir hreyfi sig að lágmarki 30 mínútur á dag (þarf ekki að vera samfelldur tími) og börn hreyfi sig í klukkutíma á dag. Höfum líka í huga að reyna að takmarka kyrrsetu eins mikið og hægt er yfir daginn, til dæmis með því að standa upp reglulega í vinnunni, nota virkan ferðamáta til og frá vinnu og leggja bílnum langt frá áfangastað.

  Nánari upplýsingar:

 • Physical activity - World Cancer Research Fund
 • Body fatness & weight gain - World Cancer Research Fund
 • Ráðleggingar um hreyfingu - Embætti landlæknis

 • Reykjum hvorki né neytum tóbaks

  Reykingar valda flestum krabbameinum og dauðsföllum af þeirra völdum á heimsvísu. Þannig eru reykingar stór áhættuþáttur 15 mismunandi krabbameina og er lungnakrabbamein algengast. Óbeinar reykingar auka líka hættuna á lungnakrabbameini. Það er ekki til neitt sem heitir skaðlaus tóbaksnotkun – fyrir hvert skipti sem tóbak er notað eykst áhættan. 

  Ekki er enn ljóst hvort rafrettur séu krabbameinsvaldandi. Hins vegar hafa fundist tengsl milli notkunar rafretta og lungnasjúkdóma.

  Nánari upplýsingar:

 • Tobacco - National Cancer Institute
 • Tobacco and cancer - European Code against Cancer

 • Verum meðvituð um að fæðuval skiptir máli

  Til að minnka líkur á krabbameinum er ráðlagt að borða mikið af grænmeti, ávöxtum, heilkornavörum og baunum. Einnig er ráðlagt að takmarka neyslu á rauðu kjöti (eða sleppa) og forðast unnar kjötvörur og sykraðar vörur eins og gosdrykki (eða sleppa). Best er að stilla neyslu á ávaxtasafa í hóf og takmarka neyslu á sykruðum drykkjum eins og gosdrykkjum og orkudrykkjum. Ekki er ráðlagt að nota fæðubótarefni sem forvörn gegn krabbameinum.

  Embætti landlæknis gefur út ráðleggingar um mataræði og eru þær í samræmi við ráðleggingar sem alþjóðlegar stofnanir á sviði krabbameinsrannsókna gefa.

  Nánari upplýsingar:

 • Ráðleggingar um mataræði - Embætti landlæknis
 • Mataræði - Krabbameinfélagið
 • Eat wholegrains, vegetables, fruit & beans - World Cancer Research Fund
 • Limit sugar sweetened drinks – World Cancer Research Fund
 • Limit red and processed meat – World Cancer Research Fund
 • Do not use supplements for cancer prevention – World Cancer Research Fund
 • Diet and cancer - European Code against Cancer
 • Limit sugar sweetened drinks – World Cancer Research Fund
 • Fylgjum leiðbeiningum um sólarvarnir og forðumst ljósabekki

  Verndum húðina fyrir skaðlegum geislum sólar og forðumst ljósabekki. Útfjólublá geislun frá sól eða sólarbekkjum getur valdið húðkrabbameini, meðal annars sortuæxlum sem er alvarlegasta gerðin. Húðin getur orðið fyrir skaða án þess að við upplifum sólbruna. Húðskaði af völdum útfjólublárra geisla er ekki bara vandamál í heitari löndum, íslenska sólskinið getur líka verið varasamt og afar mikilvægt er að passa að börn brenni ekki.

  Nánari upplýsingar:

 • Ultraviolet radiation and cancer - European Code against Cancer
 • Sólin getur bitið - Karlaklefinn
 • Húðkrabbamein - Krabb.is
 • Neytum áfengis í hófi eða sleppum því

  Forðumst áfengi því allar gerðir áfengis auka krabbameinsáhættu. Minna er betra ef við neytum þess á annað borð

  Áfengi er staðfestur krabbameinsvaldur. Áfengisneysla eykur líkur á sjö mismunandi krabbameinum: í munni og koki, barkakýli, vélinda, maga, lifur, ristli og endaþarmi og brjóstum. Magn áfengis skiptir máli. Því meira magn sem drukkið er því meiri líkur eru á krabbameinum. Þó að æskilegast sé að sleppa alfarið að drekka áfengi þá er mikilvægt að muna að það er líka alltaf til bóta að draga úr neyslunni.

  Nánari upplýsingar:

 • Limit alcohol consumption - World Cancer Research Fund
 • Alcohol drinking and cancer - European Code against Cancer
 • Áfengi - Karlaklefinn
 • Mundu líka að vera vakandi fyrir einkennum krabbameina! 

  Gott er að vera vakandi fyrir einkennum krabbameina. Því fyrr sem krabbamein greinist, því líklegra er að meðferð beri árangur. 

  Nánari upplýsingar:

 • Sjálfskoðun eistna
 • Þekktu einkennin og ekki bíða of lengi
 •  

  Veggspjaldið með heilsuráðum Mottumars frá því 2020 stendur enn fyrir sínu!