Mottumars er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum.
Mottumars er árlegt verkefni Krabbameinsfélagsins, sem er í senn vitundarvakning um krabbamein hjá körlum og fjáröflun fyrir félagið. Í ár leggjum við áherslu á gildi hreyfingar sem forvarnar gegn krabbameinum. Rannsóknir sýna að reglubundin hreyfing dregur úr líkum á krabbameinum auk þess sem hreyfing er til góðs fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein.
Með heilsusamlegum lífsstíl er hægt að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 krabbameinum. Krabbameinsfélagið vinnur að forvörnum gegn krabbameinum og hefur það að markmiði að fækka þeim sem greinast með krabbamein. Starfsemi félagsins byggir alfarið á styrkjum einstaklinga og fyrirtækja og með kaupum á Mottumarssokkum leggur fólk stórt lóð á vogarskálarnar. Kæru landsmenn, upp með sokkana!
Sérhannaðir sokkar hafa síðastliðin tvö ár vakið mikla lukku. Í ár bjóðum við nýja og glæsilega Mottumarssokka til styrktar átakinu á 2000 kr. Hönnuður þeirra er Gunnar Hilmarsson, yfirhönnuður Herrafataverzlunar Kormáks og Skjaldar. Salan hefst laugardaginn 29. febrúar og lýkur laugardaginn 14. mars. Sokkarnir eru til í fullorðins og barnastærðum á mottumars.is en í fullorðinsstærðum í verslunum um land allt.
Fjármunum sem safnast í átakinu er varið til vísindastarfs, rannsókna, fræðslu, forvarna og til að veita endurgjaldslausa þjónustu, stuðning og ráðgjöf með námskeiðahaldi og viðtölum við fagaðila. Kynntu þér starfsemina nánar á www.krabb.is
Allur ágóði rennur til Krabbameinsfélagsins og allir söluaðilar selja sokkana endurgjaldslaust. Sá stuðningur er ómetanlegur. Að auki hafa tugir einstaklinga og fyrirtækja gefið alla sína vinnu, afnot af tækjum eða aðstöðu eða veitt mjög rausnarlegan afslátt. Þúsund þakkir til ykkar allra.
Fjárhagslegur stuðningur almennings og fyrirtækja er grundvöllur þess að Krabbameinsfélagið geti starfað. Í sameiningu getum við haldið áfram að vinna að enn betri árangri varðandi það að draga úr fjölda krabbameinstilvika, fækka dauðsföllum af völdum krabbameina og að bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Fleiri og fleiri læknast af krabbameinum eða lifa lengi með þau sem langvinna sjúkdóma og að sama skapi eykst mikilvægi endurhæfingar. Framlag þitt er forsenda þess að árangur náist.
Karlaklefinn er ný upplýsingagátt sérsniðin fyrir karlmenn sem opnaði fyrir ári síðan. Rannsóknir sýna að karlmenn yfir fimmtugu nýta sér síður en konur stuðning í veikindum. Framsetning á efni skiptir því miklu máli. Í Karlaklefanum er að finna fjölbreytt efni, margvíslegt fræðsluefni og upplýsingar um einkenni krabbameina svo dæmi séu tekin. Þar er líka að finna gagnvirkt fræðsluefni sem getur aðstoðað karla við ákvarðanatöku um skimun fyrir blöðruhálskirtilskrabbameini. Einnig er þar að finna margvíslegt efni tengt heilbrigðum lífsstíl, s.s. upplýsingar um hreyfingu, hollt mataræði og fleira.
Sunnudaginn 1. mars kl 11 verður svo Karlahlaup Mottumars haldið í fyrsta skipti. Karlahlaupið er það fyrsta sinnar tegundar, - loksins! en Kvennahlaupið er alþekkt og á 30 ára sögu. Karlar munu því fjölmenna við Hörpu og ganga, hlaupa, valhoppa og trítla 2,5 km leið frá Hörpu eftir Sæbraut og til baka eða samtals 5 km. Skráning er hafin á mottumars.is/karlahlaup. Skráningargjald er 4.500 kr en innifalið er eitt ylvolgt og fallegt par af Mottumars-sokkum. Yngri en 18 ára greiða aðeins 2.500 kr í skráningargjald – og fá auðvitað líka sokka.
Hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins verður í átakinu sérstök áhersla lögð á ráðgjöf við karla. Frekari upplýsingar verða birtar á krabb.is og á facebook-síðu Ráðgjafarþjónustunnar.
Mottumarssokkar kosta 2.000 kr. og eru seldir í netverslun Krabbameinsfélagsins og á sölustöðum um landið sem sjá má hér að neðan frá 29. febrúar til 14. mars. Félagið hvetur alla til að klæðast sokkunum á Mottudaginn, föstudaginn 13. mars, og sýna þannig körlum táknrænan stuðning í verki.
Hvetjum vini, vandamenn og samstarfsfélaga til að taka þátt í átakinu og ekki væri verra ef starfsmenn vinnustaða tækju sig saman og efndu til skemmtilegra leikja í tengslum við daginn! Krabbameinsfélagið hvetur hópa til að gera eitthvað skemmtilegt saman á Mottudaginn og senda myndir á mottumars@krabb.is eða setja á Facebooksíðu átaksins.
Ár hvert greinast um 832 íslenskir karlar með krabbamein, samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá.
Árlegur meðalfjöldi tilfella 2014-2018 samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá.