Um átakið

Mottumars er árlegt átak Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. 

Í Mottumars tökum við höndum saman í vitundarvakningu um krabbamein hjá körlum og öflum fjár fyrir mikilvægri starfsemi.

Árlega missum við 320 pabba, afa, bræður, syni og vini úr krabbameinum. Þekktu einkennin því þú ert eldri en þú heldur. 

Ný rannsókn Krabbameinsfélagsins leiddi í ljós að margir karlar sem síðar greindust með krabbamein drógu það að leita til læknis þó þeir fyndu fyrir einkennum sem bentu til vanheilsu. Almennt leituðu karlar seinna til læknis en konur og 14% karla hittu ekki lækni fyrr en meira en ári eftir að einkenna varð vart. 

Ef einkenni eiga rót sína að rekja til krabbameins er áríðandi að það greinist sem fyrst.

Í ár minnum við því karlmenn sérstaklega á að kynna sér og þekkja hvaða einkenni geta bent til krabbameins og hvetjum þá til að leita fljótt til læknis verði þeir varir við slík einkenni.

ERT ÞÚ ELDRI EN ÞÚ HELDUR ?

Slagorð Mottumars í ár er ,,Þú ert eldri en þú heldur“ og byggir á því sem margir karlar geta líklega tekið undir -nefnilega að upplifa að þeir séu enn það ungir að þeir þurfi ekki að huga sérstaklega að heilsufari sínu. Staðreyndin er þó sú að allir ættu að þekkja og gefa gaum þeim einkennum sem geta bent til krabbameins. Sérstaklega ættu karlmenn í kringum fimmtugt og eldri að vera vakandi fyrir þeim því líkurnar á að greinast með krabbamein aukast eftir því sem aldurinn færist yfir. 

Hverju er safnað fyrir?

Fjármunum sem safnast í átakinu er varið til: 

 • Íslenskra rannsókna á krabbameinum sem snúa meðal annars að orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.

 • Endurgjaldslausrar ráðgjafar hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa og stuðnings við þá sem greinast með krabbamein og aðstandendur þeirra.

 • Ýmis konar forvarnafræðslu, námskeiða og starfsemi sem miðar m.a. að því að draga úr líkum á krabbameinum og bæta lífsgæði hjá þeim sem greinast með krabbamein.
 • Afnot af íbúðum fyrir sjúklinga og aðstandendur, hagsmunagæslu og liðsinni á 8 þjónustuskrifstofum um land allt.
Kynntu þér starfsemi Krabbameinsfélagins nánar á www.krabb.is  og skoðaðu líka hvað er að finna í Karlaklefanum sem er vefsíða sérstaklega miðuð að körlum. 

Stuðningur einstaklinga og fyrirtækja við átakið er ómetanlegur. Hundruð einstaklinga og fyrirtækja hafa í gegnum tíðina jafnframt gefið alla sína vinnu, afnot af tækjum eða aðstöðu eða veitt mjög rausnarlegan afslátt. Þúsund þakkir til ykkar allra. 

Hvers vegna?

Fjárhagslegur stuðningur almennings og fyrirtækja er grundvöllur þess að Krabbameinsfélagið geti starfað. Í sameiningu getum við haldið áfram að vinna að enn betri árangri varðandi það að draga úr fjölda krabbameinstilvika, fækka dauðsföllum af völdum krabbameina og að bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Fleiri og fleiri læknast af krabbameinum eða lifa lengi með þau sem langvinna sjúkdóma og að sama skapi eykst mikilvægi endurhæfingar. Framlag þitt er forsenda þess að árangur náist.

Leiðir til að taka þátt í Mottumars

Einstaklingar

 • Kaupa sokka!
 • Safna mottu!  Skrá sig til leiks í Mottukeppnina og safna áheitum.
 • Styddu þinn uppáhaldskeppanda í Mottukeppninni.
 • Vektu athygli samferðamanna á skilaboðum átaksins um að þekkja og bregðast við einkennum sem gætu orsakast af krabbameini.
 • Skipulegðu skemmtilegan Mottumarsdag 11. mars fyrir þig og þína!

Fyrirtæki

Við hvetjum fyrirtæki til að taka þátt í átakinu af krafti og hvetja alla karlmenn: starfsmenn, viðskiptavini og fjölskyldu til að hugsa um heilsuna og vera vakandi fyrir einkennum krabbameina.

 • Halda á lofti skilaboðum átaksins í ár við starfsmenn um að þekkja einkenni krabbameina og bregðast við þeim. Veggspjald til að prenta út og hengja upp á vinnustaðnum: Sækja.
 • Hvetja til að myndað sé lið vinnustaðarins fyrir mottukeppnina og heita á sína þátttakendur.
 • Halda upp á Mottudaginn föstudaginn 11. mars. Til dæmis með Mottumarsmorgunkaffi eða - brunch og almennum skemmtilegheitum. 
 • Kaupa vörur tengdar Mottumars: Skoða.

Mundu!

Mottudagurinn 2022 er föstudaginn 11.mars.

Nokkrar staðreyndir um krabbamein hjá körlum

 • Ár hvert greinast um 879 íslenskir karlar með krabbamein
 • Í árslok 2020 voru á lífi 7.349 karlar sem fengið hafa krabbamein
 • Tæpur helmingur þeirra sem greinast eru á aldrinum frá 40 til 69 ára.
 • Þriðji hver karlmaður greinist með krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni.
 • Talið er að um tíunda hvert krabbamein skýrist af arfgengum þáttum.
 • Hver og einn getur gert ýmislegt til að draga úr líkum á að fá krabbamein, til dæmis með því að reykja ekki, hreyfa sig reglulega, borða hollan og fjölbreyttan mat, takmarka neyslu áfengis og varast óhófleg sólböð.
 • Algengustu krabbamein hjá körlum eru krabbamein í blöðruhálskirtli, ristli og endaþarmi og lungum.
 • Meðalaldur við greiningu krabbameins er um 68 ár.
 • Lífshorfurnar hafa batnað mikið. Um 68% karla sem greinast með krabbamein læknast eða lifa meira en 5 ár.

Algengustu krabbamein karla

Árlegur meðalfjöldi tilfella 2016-2020 samkvæmt upplýsingum frá Rannsókna- og skráningarsetri Krabbameinsfélagsins.

 • Blöðruhálskirtill 210
 • Ristill og endaþarmur 94
 • Lungu 78
 • Húð án sortuæxla 76
 • Þvagvegir og þvagblaðra 69
 • Nýru 37
 • Eitilfrumuæxli 32

Nánari upplýsingar