Hönnuðurinn

Farmers Market er íslenskt hönnunarfyrirtæki, stofnað 2005 af hjónunum Bergþóru Guðnadóttur hönnuði og Jóel Pálssyni tónlistarmanni.
Innblástur er sóttur í ræturnar; íslenska arfleið, náttúru og menningu svo úr verður vörulína þar sem klassísk norræn hönnunarstef kallast á við mínímalískan módernisma þar sem sveitarómantíkin er aldrei langt undan. Sjálfbærni, notagildi og virðing fyrir umhverfinu eru leiðarstef fyrirtækisins en fatnaðurinn hentar við fjölbreytt tilefni, útivist til jafns við borgarlíf.

"Við staðsetjum okkur á krossgötum, skurðpunkti þar sem fortíð mætir nútíð, hið þjóðlega mætir hinu alþjóðlega og sveitin mætir borginni. Okkur þykir spennandi að bræða saman þessa heima.”


Bergþóra um hönnun sokkanna í ár: "Leiðarstefið í hönnun hjá okkur í Farmers Market - Iceland er tílvísun í norræna arfleið og rætur. Mottumarssokkarnir í ár eru prýddir símynstri sem við hönnuðum í þeim anda og vísar í mynstur í prjóni, vefnaði og útsaumi frá fyrri tímum. Að þessu sinni fengum við að víkja aðeins frá hefðbundu björtu litunum sem einkennt hafa sokkana undanfarin ár og gera aðeins dempaðaðri útgáfu.

Mynstrið samanstendur af nokkrum mynsturborðum og eyðum inná milli sem mynda grunninn. Þessar eyður eru mikilvægur hluti af mynstrinu ekki ósvipað þögnum í tónlist. Ef vel er að gáð má sjá að í eyðunum leynist annað mynstur - hjörtu sem kallast skemmtilega á við hin norrænu stef og mynda mynstrin þannig eina samofna heild."

IMG_0109