66°Norður hannaði Mottumarssokkanna í ár. Sokkarnir sækja innblástur sinn í hafið sem á sér beina tengingu í arfleið 66°Norður. Frá stofnun vörumerkisins árið 1926 á Suðureyri hefur klæðnaður 66°Norður veitt Íslendingum skjól í sudda og súld, en nú veita Mottumars x 66°Norður sokkarnir einstöku málefni lið.
„Þegar við sjáum baujuna vitum við að við erum á réttum stað. Þetta er áminningin fyrir okkur að halda utan um heilsuna, tengja við yfirskrift átaksins sem hvetur karlmenn til að leita til læknis ef þeir eru með einkenni.“
Rakel Sólrós Jóhannsdóttir og Þórdís Claessen hjá 66°Norður, eiga heiðurinn af sokkunum þar sem brimrót hafsins er í aðalhlutverki. „Það var ótrúlega gaman að fá tækifæri til að hanna Mottumars sokkana í ár í samstarfi við kollega minn Þórdísi Claessen og í nánum samskiptum við Krabbameinsfélagið,“ segir Rakel Sólrós. „Við fengum ákveðna litapallettu og leituðum í ríka sögu 66°Norður fyrir innblástur. Með hönnuninni vildum við gera sjómanninum og hafinu hátt undir höfði með fallegu mynstri af öldum í mörgum bláum tónum.“
Baujan vísar okkur veginn
„Þetta er okkar erfðaefni og grunnur fyrirtækisins. Þetta er okkur mjög hugleikið og það er ákveðinn kraftur í sjónum. Við höfum dregið upp úr sjónum okkar lífsbjörg,“ sagði grafíski hönnuðurinn Þórdís en Rakel er fatahönnuður. „Innblásturinn kom auðveldlega til okkar, varðandi okkar sögu og hvernig sjórinn tengist þar inn í er eins eðlislægt og fyrir hvern annan Íslending,“ bætti hún við.
Við hönnun sokkanna voru þau að vinna með fánalitina með aðaláhersluna á bláu tónana til þess að ná ákveðinni dýpt sem býr í sjónum. Hællinn táknar síðan rauðu baujuna í ólgusjónum, vegvísinn sem sjómenn og Íslendingar þekkja vel. „Þegar við sjáum baujuna vitum við að við erum á réttum stað. Þetta er áminningin fyrir okkur að halda utan um heilsuna,” segir Þórdís, og tengir þar með við yfirskrift átaksins sem hvetur karlmenn til að leita til læknis ef þeir eru með einkenni. Þetta er svolítið eins og að hnýta hringinn að halda utan um hvert annað eins og hafið gerir. Það heldur utan um okkur.”