Um átakið

Mottumars er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum í körlum. Markmið átaksins í ár er að auka þekkingu á skaðsemi tóbaksnotkunar og hvetja þá karla sem nota tóbak að hætta.

Tóbaksnotkun veldur flestum krabbameinum á Íslandi sem og í heiminum. Árlega greinast að meðaltali um 140 karlar með krabbamein sem rekja má til tóbaksnotkunar og um 90 látast. Þrátt fyrir góðan árangur í tóbaksforvörnum eru enn 11% karla sem reykja daglega og um fjórðungur ungra karla á aldrinum 18-24 ára nota munntóbak daglega. Auk þess hafa rafsígarettur skotið rótum í skólum þar sem tóbaksnotkun var áður hverfandi en fjórðungur barna í 10. bekk hafa notað rafsígarettur.

Með samhentu átaki í fræðslu og forvörnum höfum við Íslendingar náð miklum árangri í fækkun dauðsfalla vegna tóbaksnotkunar og bættra lífsgæða tugþúsunda sem hafa tekið ákvörðun um að hætta. Við getum gert betur því öll tóbaksneysla er skaðleg heilsu og skapar fíkn.

Í Mottumars dreifum við fræðsluefni um skaðsemi sígaretta, munntóbaks og rafsígaretta. Framlag þíns fyrirtækis getur skipt miklu máli. Við getum haft áhrif vegna þess að rannsóknir sýna að koma má í veg fyrir allt að helming krabbameina með fræðslu og forvörnum.

Hægt er að senda fyrirspurnir á mottumars@krabb.is.

Mottudagurinn 10. mars

Föstudaginn 10. mars 2017 hvetur Krabbameinsfélagið alla landsmenn, konur og karla, til að halda upp á Mottudaginn með því að leyfa karlmennskunni að skína sem aldrei fyrr!

Á Mottudeginum látum við ímyndunaraflið ráða för og skörtum öllu mögulegu tengdu karlmanninum, fatnaði, höfuðfötum, gerviskeggi o.s.f. og hvetjum alla landsmen til að gera slíkt hið sama. Leyfum karlmennskunni að njóta sín þennan dag. Hvetjum vini, vandamenn og samstarfsfélaga að taka þátt í átakinu og ekki væri verra ef starfsmenn vinnustaða tækju sig saman og efndu til skemmtilegra leikja í tengslum við daginn! Krabbameinsfélagið hvetur hópa til að gera eitthvað skemmtilegt saman og láta mynda sig á ýmsan hátt og senda á mottumars@krabb.is eða setja á Facebooksíðu átaksins.

Hjá Krabbameinsfélaginu er hægt að fá ýmislegt sem fólk getur notað til að skreyta sig á Mottudaginn. Skoðaðu vörurnar í netverslun Krabbameinsfélagsins hér .

Meginmarkmið átaksins „karlmenn og krabbamein/Mottumars 2017 var líkt og fyrri ár að hvetja karlmenn til að þekkja einkenni krabbameina og stuðla að jákvæðum breytingum á lífsháttum til að koma í veg fyrir krabbamein.

Átak Mottumars er tvíþætt; bæði sem árveknis- og fjáröflunarátak. Þeir fjármunir sem safnast í átakinu eru notaðir í forvarnir, fræðslu, ráðgjöf og rannsóknir.

Nokkrar staðreyndir um krabbamein í körlum

Ár hvert greinast um 780 íslenskir karlar með krabbamein, samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins.

 • Nú eru á lífi um 6.160 karlar sem fengið hafa krabbamein
 • Tæpur helmingur þeirra sem greinast eru á aldrinum frá 40 til 69 ára.
 • Samkvæmt útreikningum frá Krabbameinsskránni greinist þriðji hver karlmaður með krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni.
 • Talið er að um tíunda hvert krabbamein skýrist af arfgengum þáttum.
 • Hver og einn getur gert ýmislegt til að draga úr líkum á að fá krabbamein, til dæmis með því að reykja ekki, hreyfa sig reglulega, borða hollan og fjölbreyttan mat, takmarka neyslu áfengis og varast óhófleg sólböð.
 • Algengust eru krabbamein í blöðruhálskirtli, ristli (ristli og endaþarmi) og lungum. 
 • Meðalaldur við greiningu skrabbameins er um 68 ár.
 • Lífshorfurnar hafa batnað mikið. Um 26% karla sem greindust með krabbamein fyrir fjörutíu árum lifðu í fimm ár eða lengur en nú geta um 68% vænst þess að lifa svo lengi.
 • Því fyrr sem krabbamein greinist, því meiri líkur eru á lækningu.

Algengustu krabbamein karla

Meðalfjöldi tilfella á ári (2011-2015)

 • Krabbamein í blöðruhálskirtill 208
 • Krabbamein í ristli og endaþarmi 83
 • Lungnakrabbamein 82
 • Krabbamein í þvagblöðru (þvagvegum o.fl.) 63
 • Húðkrabbamein, önnur en sortuæxli 52
 • Nýrnakrabbamein 35
 • Eitilfrumuæxli 26
 • Heilaæxli o.fl. 24
 • Briskrabbamein 20
 • Sortuæxli í húð 18
 • Magakrabbamein 17