Reynslusaga: Væri ekki á lífi ef hann hefði þagað

Egill Þór Jónsson telur að hann væri ekki á lífi ef hann hefði þagað í gegnum sína meðferð og hvetur alla til að sækja sér alla þá hjálp sem í boði er, nýta sér stuðningsfélögin sem eru að styðja við þá sem greinast. Jafningjastuðningur hafi verið honum afar mikilvægur, að finna fyrir sterkri tengingu við einhvern sem búinn var að ganga í gegnum það sama og hann var að ganga í gegnum í fyrsta sinn, hafi verið ómetanlegt.

Egill greindist með stóreitilsfrumukrabbamein árið 2021 og hóf í kjölfarið lyfjameðferð. Þremur vikum fyrir settan fæðingardag dóttur hans, fékk hann þá niðurstöðu úr jáeindaskanna að hann væri laus við krabbameinið. En viku fyrir fæðingu dótturinnar kom í ljós að meinið hafið tekið sig upp aftur. Hann fór í kjölfarið í erfiða meðferð til Svíþjóðar sem reyndi mjög á hann og hann hélt að myndi ekki lifa af. „En hér sit ég í dag“ segir hann fullur þakklætis með bros á vör.

Margir tala um að í kjölfar greiningar fái þeir nýja sýn á lífið. Hann segist ekki alltaf tengja við þennan frasa en hann segist vera betri pabbi eftir þessa reynslu. Það að vera í kringum börnin sín og gera eitthvað með þeim sé honum ómetanlegt. Því þegar hann var veikur var sonur hans einungis tveggja ára og dóttir hans nýfædd. Hann mátti hvorki halda á henni né snerta, fyrsta hálfa árið eftir að hún fæddist, af því hann var annað hvort eitraður af krabbameinsmeðferðum eða nýbúinn í uppskurði. „En ég veit náttúrulega ekki hvernig pabbi ég væri ef ég hefði ekki gengið í gegnum þetta“ segir Egill.

https://youtu.be/3wnyyngy2AY?si=pJvnCm97US2IBMEa