Skeggkeppni

Skeggjaður árangur 

 

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 270 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 13,8 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Skeggkeppnin er fastur liður í Mottumars, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki Krabbameinsfélagsins. Þátttakendur eru hvattir til að skarta mottu og safna áheitum frá vinum, vandamönnum og þjóðinni allri. Söfnunarfé rennur óskipt til Krabbameinsfélagsins og nýtist m.a. til að veita endurgjaldslausa ráðgjöf og stuðning til krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra, til íslenskra rannsókna á krabbameinum og til ýmis konar fræðslu og forvarna.

Í fyrra var þátttakan afar góð, en þá voru þátttakendur hátt í 200 talsins og söfnuðust 8.522.194 krónur. Það er því óhætt að segja að við séum í skýjunum með árangur keppninnar í ár, en alls söfnuðu 270 þátttakendur 13.816.520 krónum. Það er svo sannarlega upphæð sem munar um.

Sigurvegarar í hverjum flokki fyrir sig voru leystir út með verðlaunum, auk þess sem verðlaun voru veitt fyrir fegurstu mottuna. Krabbameinsfélagið kemur á framfæri hjartans þökkum til þeirra fyrirtækja sem lögðu til vinninga og auðvitað til allra þeirra sem tóku þátt og styrktu.

Í sameiningu vinnum við að þeim markmiðum að draga úr fjölda krabbameinstilvika, fækka dauðsföllum af völdum krabbameina og bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbbamein og aðstandenda þeirra.

Einstaklingskeppni – úrslit
Sigurvegari: Helgi Rúnar Bragason, með 2.210.001 krónu.

Helgi Rúnar hefur náð eftirtektarverðum árangri í Skeggkeppni Mottumars undanfarin tvö ár, en í heildina hefur hann safnað rúmlega 3,5 milljónum króna. Helgi Rúnar veitti góðfúslegt leyfi fyrir viðtali sem má nálgast hér, þar sem hann talaði um krabbameinsgreininguna, Round Table félagsskapinn og mikilvægi þess að gefa af sér. Helgi Rúnar var leystur út með ferð í Skógarböðin á Akureyri og ævintýraveislu á Rub23 .

2. sæti: Hr. Pringles, með 1.664.001 krónu.

3. sæti: Baldur Gunnarsson, með 955.000 krónur.

4. sæti: Sigurkarl, með 750.000 krónur.

5. sæti: Valdimar Kjartansson, með 453.000 krónur.

Liðakeppni – úrslit
Sigurvegari: Góðgerðarsjóður Round Table, með 2.818.002 krónur.

Round Table er alþjóðlegur félagsskapur ungra manna á aldrinum 20-45 ára. Tilgangur samtakanna er að vera stuðnings- og félagsnet fyrir karlmenn en einnig að láta gott af sér leiða. Á landsvísu hefur hreyfingin m.a. verið dyggur stuðningsaðili Mottumars undanfarin ár. Liðsmenn Round Table voru leystir út með hópferð í pílu og pizzu á Bullseye á Snorrabraut.

2. sæti: Byko timbursala, með 1.113.000 krónur.

3. sæti: Sjúkraflutningar HSU, með 448.000 krónur.

4. sæti: Mottumass, með 355.333 krónur.

5. sæti: Verzlunarmottur, með 331.001 krónur.

Fegursta mottan

Jón Baldur Bogason hefur verið árlegur þátttakandi nánast frá upphafi Skeggkeppni  Mottumars og tekur þátt í minningu bróður síns. Hann skartar mottu sem hefur unnið til verðlauna á heimsvísu og hlýtur í annað sinn viðurkenningu fyrir fegurstu mottuna. Hér má nálgast viðtal þar sem Jón Baldur segir m.a. frá skeggrækt sem áhugamáli og fyrsta Íslandsmeistaramótinu í skeggvexti. Jón Baldur var leystur út með skeggvörum úr vefverslun Krabbameinsfélagsins.

 

 

Taktu þátt í skeggkeppninni og safnaðu áheitum fyrir gott málefni.

Þú skráir þig sem einstakling og getur svo í framhaldi af því valið þér lið til að taka þátt í.

Skrá mig í skeggkeppnina

Viltu frekar styrkja keppendur?

Ef þú vilt styrkja málefnið án þess að skrá þig í skeggkeppnina tökum við þér fagnandi. Það vinnur enginn án stuðnings.

Styrkja lið eða einstakling

Leiðin til sigurs

Ekki segja hinum, en við erum með tips og trix fyrir metnaðarfulla keppendur.

  • Grípandi nafn er gott, en flott mynd er ennþá betri.

  • Ef skeggvöxturinn er ekki alveg kominn (ennþá) eigum við flottan Instagram filter sem virkar fyrir öll kyn (en bara í farsímum). Taktu upp vídeó með filternum og sjáðu hvaða mottu gervigreindin úthlutar þér.

  • Ef þú hefur persónulega sögu af því hvers vegna málefnið skiptir þig máli þá gæti það hæglega skorað nokkur styrktarstig.

  • Síðast en ekki síst smala, smala og smala. Deildu hlekknum fyrir þitt lið eða einstaklingsskráningu á vini og vandamenn og ekki hika við að minna á þig.

  • Notaðu #mottumars og ekki gleyma að smala!

QR kóði fyrir Instagram Mottumars filter