Sígarettureykingar

Ekkert skaðar líkamann jafn mikið og sígarettureykingar. Lífslíkur reykingamanna eru að meðaltali 10 árum minni og dánartíðnin er um þrisvar sinnum hærri í samanburði við þá sem hafa aldrei reykt.

Við Íslendingar höfum náð góðum árangri í tóbaksvörnum og er hlutfall reykingamanna hér á landi með því lægsta sem þekkist í vestrænum löndum Árið 1970 reykti um helmingur fullorðinna Íslendinga daglega en 11,5% árið 2015. Lengi vel voru fleiri karlar sem reyktu en nú eru heldur fleiri konur en karlar sem reykja. Auk þess reykja 3,7% sjaldnar en daglega, sem hefur einnig aukna sjúkdómsáhættu í för.

Fækkun reykingamanna hefur skilað sér í að nú er tíðni lungnakrabbameins farin að lækka. Við höfum einnig séð góðan árangur í reykingarforvörnum barna. Fyrir þrjátíu árum reykti um helmingur nemenda í 9. og 10. bekk að einhverju marki en árið 2014 var hlutfallið komið niður í 2%.

Þrátt fyrir þennan góða árangur reykja enn meira en 37 þúsund fullorðnir Íslendingar. Auk þess að vera orsök margra tegunda krabbameins hafa sígarettureykingaráhrif áð aðra starfsemi líkamans sem leitt getur til ýmissa sjúkdóma. Sem dæmi er tíðni hjartaáfalla og heilablóðfalla stóraukin meðal reykingafólks og reykingar geta einnig skilið fólk eftir háð súrefniskút út lífið því efnin í sígarettum skemma öndunarfærin hægt og örugglega. Sömuleiðis er vel þekkt að efni í tóbaksreyk skerða blóðflæði til getnaðarlims og auka þannig líkur á getuleysi hjá þeim sem reykja.

Óbeinar reykingar

Tóbaksvarnarlögin frá árinu 2007 voru meðal annars sett til að vernda fólk frá óbeinum reykingum því nú er vel staðfest að óbeinar reykingar (þ.e. að anda að sér reyk frá brennandi sígarettu og reyknum sem reykingamaður andar frá sér) auka hættu á lungnakrabbameini, hjartasjúkdómum, heilablóðfalli  meðal fullorðinna.

Börn sem anda að sér óbeinum reyk eru líklegri en önnur til að þjást af astma, eyrnabólgum, öndunarfæðasjúkdómum og að deyja vöggudauða. Einnig hefur verið sýnt fram á að börn reykingafólks eru í aukinni hættu á að fá ákveðnar tegundir krabbameina. Á heimsvísu eru börn um 10% af þeim sem látast af völdum óbeinna reykinga.

Viltu hætta að reykja? Smelltu hér til að fá góð ráð!

Hægt er að fræðast um reykingar með því að horfa á myndbandið og/eða taka prófið og komast að því hvað þú veist um sígarettureykingar !

Fræðsluefni og greinar