Tóbaksreykingar auka hættu á 17 krabbameinum og eru flest tilfellin af völdum lungnakrabbameins

Góður árangur hefur náðst í tóbaksvörnum í vestrænum löndum og sífellt fækkar þeim sem byrja að reykja. Hlutfall reykingafólks á Íslandi er með því lægsta sem þekkist. Karlar byrjuðu að reykja á undan konum en þeir hafa nú verið duglegri við að hætta. Nú eru færri karlar sem reykja sígarettur daglega, eða um 11% samanborið við 12% kvenna.

Þrátt fyrir góðan árangur greinast árlega um 140 karlar með krabbamein sem rekja má til tóbaksneyslu og um 90 deyja. Margfalt fleiri missa náinn ættingja eða kæran vin. Tóbaksneysla snertir því ekki einungis þann sem neytir þess heldur einnig fjölskyldu, vini og fleiri.

Rannsóknir sýna að sígarettureykingar auka hættu á 17 tegundum krabbameins og eru flest tilfellin af völdum lungnakrabbameins, sem er algengasta dánarorsök vegna krabbameina en um 90% lungnakrabbameina má rekja til tóbaksreykinga. Einnig hefur verið sýnt fram á orsakasamband reykinga við krabbamein í munnholi, nef- og munnkoki, nefholi, barka, vélinda, maga, brisi, ristli og endaþarmi, lifur, nýrum, þvagleiðurum, þvagblöðru, leghálsi og eggjastokkum, auk þess sem reykingar auka hættu á hvítblæði. Jafnframt hefur verið sýnt fram á tengsl við brjóstakrabbamein. Einnig er vitað að börn foreldra sem reykja eru í aukinni hættu á að fá krabbamein í lifur (hepatoblastoma).


Lungnakrabbamein

Lungnakrabbamein er meðal fárra tegunda krabbameina þar sem meginorsök er þekkt en um 90% orsakast af tóbaksreykingum. Þetta er því sjúkdómur sem auðveldlega væri hægt að koma í veg fyrir að mestu leyti með hertum aðgerðum gegn tóbaksreykingum ásamt fræðslu. Mikið er í húfi því lungnakrabbamein veldur flestum dauðsföllum vegna krabbameins, bæði hjá körlum og konum. Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbameinið hjá körlum og á hverju ári greinast að meðaltali um 80 karlar með sjúkdóminn.

Nokkur einkenni:

 • Þrálátur hósti. Hósti er algengur hjá reykingarmönnum vegna ertingar af völdum tóbaksreyks. Stöðugan hósta ber að taka alvarlega og rannsaka. Algengara er þó að hósti sé tilkominn vegna annars sjúkdóms en krabbameins, eins og lungnaþembu eða langvinnrar berkjubólga.
 • Að hósta upp blóði er alvarlegt einkenni sem þarf að rannsaka.
 • Hæsi eða brjóstverkur.
 • Lystarleysi, slappleiki, þyngdartap eða langvarandi hiti.

Nánar um þetta krabbamein

Ristil-og endaþarmskrabbamein

Ristil-og endaþarmskrabbamein eru venjulega flokkuð saman og oft undir heitinu ristilkrabbamein. Þau eru ein fárra meina sem hægt er að koma í veg fyrir eða finna á byrjunarstigum, til dæmis með hópleit, og auka þannig líkur á lækningu. Þeir sem eru á aldrinum 50-75 ára ættu að ræða við lækni um leit að ristilkrabbameini. Hjá þeim sem eru með sterka ættarsögu gæti þurft að hefja skimun fyrr. Heimilislæknar og meltingarfæralæknar geta gefið nánari upplýsingar. Ristilkrabbamein er fjórða algengasta krabbameinið hjá körlum með um 60 ný tilfelli á hverju ári. 

Nokkur einkenni: 

 • Blóð í hægðum án augljósra skýringa. Bæði ferskt og sýnilegt með berum augum og svo svartar hægðir, sem geta orsakast af blæðingu ofar í meltingarveginum. Mælt er með að allar blæðingar í hægðum séu teknar alvarlega.
 • Kviðverkir eða krampar sem hætta ekki.
 • Viðvarandi breyting á hægðavenjum, einkum aukin tíðni salernisferða eða niðurgangur sem varir vikum saman.
 • Blóðleysi af óþekktri orsök.
 • Þyngdartap og þrekleysi.
Nánar um þetta krabbamein

Blöðruhálskirtils­krabbamein

Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbameinið hjá körlum og greinast um 210 karlar á hverju ári. Engin skipuleg leit hefur verið að krabbameini í blöðruhálskirtli, hvorki hérlendis né í nágrannalöndum. Ástæðan er sú að það próf sem hefur verið stuðst við hingað til, svokölluð PSA-mæling, uppfyllir ekki kröfur um skimunarpróf.

Karlmenn sem eru með einkenni frá þvagvegum, eru með ættarsögu um sjúkdóminn eða komnir yfir fimmtugt og vilja fá upplýsingar um PSA-mælingu er ráðlagt að panta tíma hjá heimilislækni eða þvagfæraskurðlækni. Einnig er velkomið að hringja í starfsmann Ráðgjafarþjónustunnar í síma 800 4040 kl. 9:00-16:00 virka daga. 

Nokkur einkenni:

Oft eru engin einkenni. Stækki meinið getur það þrýst á þvagrásina og valdið einu eða fleirum einkennum:

 • Þvagtregða, erfiðleikar að byrja þvaglát, kraftlítil þvagbuna, dropar í lok þvagbunu og/eða erfitt að tæma þvagblöðruna.
 • Tíð þvaglát, sérstaklega á næturna.
 • Blöðrubólga, verkur eða óþægindi við þvaglát.
 • Blóð í þvagi eða sáðvökva.Góðkynja sjúkdómar í blöðruhálskirtli eru þó algengasta orsök þessara einkenna.

Einkenni sem ágerast hratt eða koma fram hjá körlum undir fimmtugt þarf alltaf að rannsaka.Hafi krabbameinið dreift sér til annarra líffæra getur það valdið eftirfarandi einkennum:

 • Beinverkir í mjöðmum, mjaðmagrind, hryggsúlu eða lærleggjum.
 • Þreyta.
 • Slappleiki.
 • Þyngdartap.

Nánar um þetta krabbamein

Sortuæxli og húðkrabbamein

Sortuæxli og önnur húðkrabbamein leggjast einkum á húðsvæði sem verða fyrir miklu sólarljósi. Sortuæxli er alvarlegasta gerð húðkrabbameina sem er auðvelt að lækna greinist það á byrjunarstigi en getur verið erfitt við að eiga nái það að dreifa sér. Karlar sem komnir eru yfir fimmtugt hafa verið að greinast síðustu ár með lengra gengin sortuæxli, þegar minni líkur eru á lækningu. Ástæðan er líklega sú að þeir bíða lengur með að fara til læknis. Árlega greinast um 20 karlar með sortuæxli og 50 karlar með önnur húðkrabbamein en sortuæxli. 

Nokkur einkenni:

Sortuæxli geta myndast alls staðar á líkamanum. Ef blettur hefur eitt eftirtalinna atriða getur það bent til sortuæxlis:

 • Hefur breyst að einhverju leyti, t.d. stækkað.
 • Er ósamhverfur.
 • Hefur óreglulegir jaðra.
 • Ef fleiri en einn litur er í blettinum.
 • Ef klæjar undan blettinum eða sár hefur myndast í honum.
 • Flöguþekjukrabbamein  í húð er algengast í andliti, t.d. á eyrum og neðri vör, en einnig t.d. í hársverði hjá þeim sem hafa þunnt hár. Það er líka algengt á handarbökum. Einkenni geta verið eftirfarandi:
 • Sár sem ekki grær.
 • Rauðleit þykknun á húð með kláða eða óþægindum.
 • Hringlaga blettur, með upphækkuðum brúnum eins og virkismúr umhverfis dæld í miðjunni.
 • Upphleyptur húðlitaður eða rauðleitur blettur á höfði eða hálsi, en stundum kemur það fram á búk og þá yfirleitt sem flatur, rauður blettur.
 • Blettur sem stækkar í einn sentímeter í þvermál yfir marga mánuði eða ár.
 • Blettur sem blæðir úr og myndar hrúður á víxl.

Þó svo að þessi æxli dreifi sér yfirleitt ekki til annarra staða í líkamanum (myndi ekki meinvörp) getur það vaxið djúpt í gegnum húðina, t.d. inn í bein.

Nánar um þetta krabbamein
Nýrnakrabbamein

Nýrnakrabbamein

Nýrnakrabbamein er algengara meðal karla en kvenna og tóbaksreykingar auka líkur á sjúkdómnum. Um 35 karlar greinast árlega með nýrnakrabbamein sem er sjötta algengasta krabbameinið hjá þeim. 

Nokkur einkenni:

Nýrnakrabbamein eru yfirleitt talin vaxa hægt og æxli geta orðið stór áður en einkenni koma fram. Algengt er einnig að nýrnakrabbamein finnist fyrir tilviljun á myndgreiningar­rannsókn vegna annarra vandamála og hafi þá ekki enn gefið einkenni.

 • Blóð í þvagi er algengasta einkennið, jafnvel einungis í nokkur skipti. Mjög misjafnt er hvenær æxli í nýrum gefa sig til kynna með blóði í þvagi. Það hendir að fram komi blæðing frá litlum æxlum en á hinn bóginn uppgötvast stundum mjög stór æxli í nýrum sem ekkert hefur blætt frá.
 • Verkir í kvið.
 • Fyrirferðaraukning í kvið.
 • Þreyta.
 • Nætursviti.
 • Hitaköst.
 • Blóðþrýstingshækkun.
 • Þyngdartap. 
Nánar um þetta krabbamein

Þvagblöðrukrabbamein

Þvagblöðrukrabbamein er fjórum sinnum algengara meðal karla en kvenna. Sögulega eru þessi mein merkileg að því leyti að þau voru fyrst æxla sem tengd voru við sýkingu af völdum frumdýrsins Schistosoma hematobium og litarefni í efnaiðnaði.

Krabbamein í þvagblöðru og þvagvegum er þriðja algengasta krabbameinið hjá körlum með rúmlega 60 ný tilfelli á hverju ári. 

 • Blóð í þvagi er algengasta einkennið, yfirleitt án þess að sársauki fylgi. Þvagið getur verið meira eða minna blóðblandað, eftir því hvar æxlið er staðsett. Stundum sést ekki blóðið með berum augum en hægt er að greina það með smásjárrannsókn á þvagi eða með sérsökum rannsóknarstrimli. Fjölmargar aðrar ástæður geta einnig verið fyrir því að blóð komi fram í þvagi, t.d. bakteríusýking, en einstaklingur með blóð í þvagi ætti alltaf að leita læknis.
 • Tíð þvaglát, þvagtregða eða sviði við þvaglát getur í einstaka tilfellum verið merki um sjúkdóminn. Oftast eru þessi einkenni þó vegna annarra sjúkdóma svo sem þvagfærasýkinga.

Nánar um þetta krabbamein