Heilsa karla

Krabbamein hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda og verður æ algengara eftir því sem menn lifa lengur. Þó svo að heilbrigðir lífshættir minnki líkur á ýmsum krabbameinum þá fær fólk sem lifir heilbrigðu lífi stundum krabbamein. Til að krabbmein myndist þarf yfirleitt samspil margra þátta. Suma þekkjum við – reykingar, áfengi, útfjólubláa geislun, o.fl. – en aðra ekki. Þekking á orsökum krabbameina hefur aukist mjög undanfarna áratugi og meðferð batnað og það endurspeglast í því að fimm ára lífshorfur hafa meira en tvöfaldast frá því fyrir fimmtíu árum og eru nú um 70%.

Öll krabbamein eru einkennalaus til að byrja með en með tímanum geta þau farið að gefa einkenni. Þá gildir almennt að því fyrr sem þau greinast, því meiri líkur eru á lækningu. Þess vegna er rík ástæða til að kynna sér einkenni sem geta vakið grun um krabbamein þó svo að oftast séu þetta merki um aðra sjúkdóma eða einkenni af saklausum toga.

Gott er að hafa í huga að flest einkenni hverfa innan fjögurra vikna en eftir þann tíma er ráðlagt að leita til læknis. Þó er alltaf ráðlagt er að leita strax til læknis vegna alvarlegra einkenna, eins og að hósta upp blóði, blóð í þvagi án annarra sýkingareinkenna eða blóð í hægðum.

Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbamein hjá íslenskum körlum. Þetta krabbamein greinist fyrst og fremst hjá eldri karlmönnum, í helmingi tilvika hjá karlmönnum sem eru orðnir 70 ára. Nokkur einkenni:

 • Tíð þvaglát og erfiðleikar við að byrja þvaglát.
 • Kraftlítil þvagbuna og erfitt að tæma þvagblöðruna.
 • Þreyta og þyngdartap og jafnvel blóð í þvagi.
 • Lestu nánar um blöðruhálskirtilskrabbamein hér.

Lungnakrabbamein er algengt krabbamein eða 11% allra krabbameina hér á landi. Það er meðal örfárra krabbameina þar sem meginorsök er þekkt en um 80-90% orsakast af tóbaksreykingum. Nokkur einkenni:

 • Stöðugan hósta ber að taka alvarlega og rannsaka.
 • Það að hósta upp blóði er alvarlegt einkenni.
 • Lystarleysi, slappleiki, þyngdartap, þreyta og langvarandi hiti.
 • Lestu nánar um lungnakrabbamein hér.

Ristilkrabbamein er meðal tíðustu krabbameina sem greinast hjá vestrænum þjóðum og eru þriðja algengasta dánarorsök hjá krabbameinssjúklingum á Íslandi. Nokkur einkenni:

 • Breytt hægðamynstur ásamt blóði í hægðum.
 • Kviðverkir, uppþemba, lítil matarlyst.
 • Þreyta, slappleiki og þyngdartap.
 • Lestu nánar um ristilkrabbamein hér.

Þvagvegakrabbamein (þvagblöðru, þvagleiðurum og þvagrás) eru þrisvar sinnum algengari meðal karla en kvenna. Algengust eru þessi æxli á aldrinum 50-75 ára. Nokkur einkenni:

 • Blóð í þvagi, yfirleitt án þess að sársauki fylgi.
 • Tíð þvaglát, þvagtregða eða sviði við þvaglát.
 • Lestu nánar um þvagvegakrabbamein hér.

Sortuæxli og önnur húðkrabbamein eru meðal algengustu krabbameina, ekki síst undir fimmtugu. Nokkur einkenni:

 • Breytingar á blettum, blæðing eða kláði (sortuæxli).
 • Sár sem ekki grær (önnur húðkrabbamein).
 • Lestu nánar um sortuæxli hér.

Eistnakrabbamein er frekar sjaldgæft. Það er þó algengasta krabbamein karla á aldrinum frá 25 ára til 39 ára. Nokkur einkenni:

 • Þyngdartilfinning, hnútur eða stækkun á eista.
 • Óþægindi í neðri hluta kviðar eða nára.
 • Lestu nánar um eistnakrabbamein hér.