Um átakið

Um átak Mottumars

Tóbaksnotkun veldur flestum krabbameinum á Íslandi sem og í heiminum. Árlega greinast að meðaltali um 140 karlar með krabbamein sem rekja má til tóbaksnotkunar og um 90 látast. Þrátt fyrir góðan árangur í tóbaksforvörnum eru enn 12% karla sem reykja daglega og um fjórðungur ungra karla á aldrinum 18-24 ára nota munntóbak daglega. Auk þess hafa rafsígarettur skotið rótum í skólum þar sem tóbaksnotkun var áður hverfandi en fjórðungur barna í 10. bekk hafa notað rafsígarettur. 


Mottumars er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum í körlum. Markmið átaksins í ár er að minnka notkun tóbaks meðal karlmanna.

Með samhentu átaki í fræðslu og forvörnum höfum við Íslendingar náð miklum árangri í fækkun dauðsfalla vegna tóbaksnotkunar og bættra lífsgæða tugþúsunda sem hafa tekið ákvörðun um að hætta eða aldrei byrjað. Við getum gert betur því öll tóbaksneysla er skaðleg heilsu og skapar fíkn. Í Mottumars dreifum við fræðsluefni um skaðsemi sígaretta, munntóbaks og rafsígaretta. Framlag þíns fyrirtækis getur skipt miklu máli. Við getum haft áhrif vegna þess að rannsóknir sýna að koma má í veg fyrir allt að helming krabbameina með fræðslu og forvörnum.

Hægt er að senda fyrirspurn á mottumars@krabb.is

Nokkrar staðreyndir um krabbamein í körlum

Ár hvert greinast um 750 íslenskir karlar með krabbamein, samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins.

 • Nú eru á lífi um 5.800 karlar sem fengið hafa krabbamein
 • Tæpur helmingur þeirra sem greinast eru á aldrinum frá 40 til 69 ára.
 • Samkvæmt útreikningum frá Krabbameinsskránni getur þriðji hver karl búist við að fá krabbamein.
 • Talið er að um tíunda hvert krabbamein skýrist af arfgengum þáttum.
 • Hver og einn getur gert ýmislegt til að draga úr líkum á að fá krabbamein, til dæmis með því að reykja ekki, hreyfa sig reglulega, borða hollan og fjölbreyttan mat, takmarka neyslu áfengis og varast óhófleg sólböð.
 • Algengust eru krabbamein í blöðruhálskirtli, ristli (ristli og endaþarmi) og lungum. 
 • Meðalaldur við greiningu sjúkdómsins er um 67 ár.
 • Lífshorfurnar hafa batnað mikið. Um 26% karla sem greindust með krabbamein fyrir fjörutíu árum lifðu í fimm ár eða lengur en nú geta um 66% vænst þess að lifa svo lengi.
 • Því fyrr sem sjúkdómurinn greinist, því meiri líkur eru á lækningu.

Algengustu krabbamein karla

Meðalfjöldi tilfella á ári (2010-2014)

 • Krabbamein í blöðruhálskirtill 205
 • Krabbamein í ristli og endaþarmi 77
 • Lungnakrabbamein 76
 • Krabbamein í þvagvegum (þvagblaðra o.fl.) 62
 • Húðkrabbamein, önnur en sortuæxli 52
 • Nýrnakrabbamein 33
 • Eitilfrumuæxli 25
 • Heilaæxli o.fl. 19
 • Briskrabbamein 18
 • Sortuæxli í húð 17
 • Magakrabbamein 16