Um átakið

Mottumars er árlegt átak Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. Í ár leggjum við áherslu á gildi hreyfingar sem forvarnar gegn krabbameinum.

Í Mottumars tökum við höndum saman í vitundarvakningu um krabbamein hjá körlum og öflum um leið fjár fyrir mikilvægri starfsemi Krabbameinsfélagsins.

Hreyfing skiptir máli

Reglubundin hreyfing hefur ótvírætt gildi fyrir almenna heilsu og vellíðan og ávinningurinn er margþættur. Rannsóknir hafa með afgerandi hætti sýnt fram á að hreyfing dregur úr líkum á ákveðnum krabbameinum og margvíslegum öðrum sjúkdómum. Regluleg hreyfing hefur einnig jákvæð áhrif á fólk sem greinist með krabbamein, að jafnaði vegnar þeim sem hreyfa sig fyrir og/eða eftir greiningu betur. Regluleg hreyfing hefur því fjölþætt góð áhrif.

Hreyfing sem hluti af stærri heild

Hægt er að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 krabbameinum með heilsusamlegum lífsstíl. Auk reglulegrar hreyfingar er fólk hvatt til að reykja hvorki né nota tóbak,  sleppa eða takmarka áfengisneyslu, huga að mataræðinu og velja sem oftast lítið unnin matvæli úr jurtaríkinu, stefna að eða viðhalda hæfilegri líkamsþyngd ásamt því að vernda húðina fyrir skaðlegum geislum sólar og nota ekki ljósabekki. Fleiri þættir eiga við um ákveðna hópa, sjá frekari upplýsingar www.krabb.is/forvarnir.

Karlmenn og krabbamein

Þriðji hver karlmaður greinist með krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Samkvæmt tölfræðilegri samantekt frá árunum 2017-2022 greindust 937 karlmenn árlega með krabbamein og á sama tímabili létust 325 karlmenn árlega úr krabbameinum. Þótt gríðarlegar framfarir hafi átt sér stað í meðferð krabbameina á undanförnum árum og fimm ára lífshorfur hafi meira en tvöfaldast frá því að skráning hófst, búum við enn við þann veruleika að yfir fjórðungur dánarmeina er af völdum krabbameins. Á vefsíðu Krabbameinsfélags má nálgast frekari tölfræðiupplýsingar úr krabbameinsskrá.

Krabbameinsfélagið heldur úti vefsíðunni Karlaklefinn sem er tileinkuð körlum og krabbameinum. Á vefsíðunni er að finna fræðsluefni af ýmsum toga sem er sérstaklega ætlað karlmönnum. Þar er jafnframt hægt að skrá sig í Karlaklúbbinn og fá sérsniðna tölvupósta nokkrum sinnum á ári með fróðleik og hvatningu.

Hvernig er söfnunarfé varið?

Fjárhagslegur stuðningur almennings og fyrirtækja er grundvöllur þess að Krabbameinsfélagið geti starfað, því starfsemin byggir á sjálfsaflafé. Stuðningur einstaklinga og fyrirtækja við átakið er ómetanlegur og í sameiningu vinnum við að enn betri árangri varðandi það að draga úr fjölda krabbameinstilvika, fækka dauðsföllum af völdum krabbameina og að bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra.

Þitt framlag styður við:

  • Endurgjaldslausa ráðgjöf hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa og  stuðning við þá sem greinast með krabbamein og aðstandendur þeirra.
  • Íslenskar rannsóknir á krabbameinum sem snúa meðal annars að orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.
  • Ýmis konar forvarnafræðslu, námskeið og starfsemi sem miðar m.a. að því að draga úr líkum á krabbameinum og bæta lífsgæði hjá þeim sem greinast með krabbamein.
  • Afnot af íbúðum fyrir sjúklinga og aðstandendur, hagsmunagæslu og liðsinni á 6 þjónustuskrifstofum um land allt.

Kynntu þér starfsemi Krabbameinsfélagsins nánar á www.krabb.is.

Ég vil taka þátt

 

Einstaklingar:

  • Kauptu sokka! Þeir verða til sölu í vefverslun Krabbameinsfélagsins og í verslunum um land allt.
  • Safnaðu mottu! Skráðu þig til leiks í Mottukeppnina og safnaðu áheitum. 
  • Styddu þinn uppáhaldskeppanda í Mottukeppninni.
  • Vektu athygli samferðamanna á skilaboðum átaksins um að hægt sé að draga úr líkum á krabbameinum með reglulegri hreyfingu ásamt fleiri heilsusamlegum lífsvenjum. 
  • Skipuleggðu skemmtilegan Mottumarsdag fyrir þig og þína!
  • Taktu þátt í átakinu á samfélagsmiðlum og ekki gleyma #mottumars og að merkja Krabbameinsfélag Íslands svo við getum deilt efninu með okkar fylgjendum.

Fyrirtæki:

  • Halda á lofti skilaboðum átaksins í ár við starfsmenn, viðskiptavini og aðra um að hægt sé að draga úr líkum á krabbameinum með reglulegri hreyfingu ásamt fleiri heilsusamlegum lífsvenjum.
  • Hvetja til að myndað sé lið vinnustaðarins fyrir Mottukeppnina og heita á sína þátttakendur.
  • Halda upp á Mottudaginn föstudaginn 22. mars. Til dæmis með Mottumarsmorgunkaffi eða - brunch og almennum skemmtilegheitum. 
  • Kaupa vörur tengdar Mottumars.
  • Taka þátt í átakinu á samfélagsmiðlum og ekki gleyma #mottumars og að merkja Krabbameinsfélag Íslands svo við getum deilt efninu með okkar fylgjendum.
Saga_sokkanna-copy